Lög 

Þjóðræknisfélags Íslendinga

1. gr.

Félagið heitir Þjóðræknisfélag Íslendinga. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

Félagar í Þjóðræknisfélagi Íslendinga geta orðið þeir einstaklingar, félög eða fyrirtæki, sem vilja vinna að markmiðum félagsins.

Heiðursfélagar geta þeir orðið sem unnið hafa sérstakt starf við að styrkja samband og samstarf afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi við Ísland. Heiðursfélagar eru ákveðnir af stjórn félagsins.

2. gr.

Markmið félagsins er að efla samstarf og tengsl við fólk af íslenskum ættum í Ameríku. Félagið beitir sér fyrir eflingu samskipta við Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi samkvæmt sérstökum samstarfssamningi stjórna félaganna.

Félagið hefur náin samskipti við félög Íslendinga vestanhafs. Það stuðlar að gagnkvæmum menningarviðburðum, miðlar upplýsingum, kemur á heimsóknum, svarar fyrirspurnum frá fólki vestan hafs og annast milligöngu um að efla tengsl þess við aðila á Íslandi. Þjóðræknisfélagið leitast við að vekja skilning íslenskra stofnana og fyrirtækja á mikilvægi náins sambands við Íslendingabyggðir vestan hafs.

3. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Hann skal boðaður með bréfi eða öðrum tryggilegum hætti með að minnsta kosti 10 daga fyrirvara og telst löglegur sé rétt til hans boðað.

Dagskrá hans skal vera þessi:

a.         Fundarsetning og kjörinn fundarstjóri og fundarritari.

b.         Skýrsla félagsstjórnar.

c.         Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.

d.         Lagabreytingar.

e.         Kjörin stjórn, varastjórn og skoðunarmenn reikninga.

f.         Kjörin þriggja manna kjörnefnd vegna næsta aðalfundar

g.         Önnur mál.

Tillögur um breytingar á lögum félagsins skulu lagðar fram á stjórnarfundi a.m.k. þrem vikum fyrir aðalfund og sendar félagsmönnum til kynningar með aðalfundarboði.

Til þess að lagabreytingar öðlist gildi þurfa þær að hljóta 2/3 greiddra atkvæða.

Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir einir, sem skuldlausir eru við félagið. Skuldlaus er sá félagi sem greitt hefur félagsgjald viðkomandi árs eða ársins á undan.

4. gr.

Félagsstjórn annast framkvæmd mála milli aðalfunda. Stjórnin er skipuð sjö aðalmönnum og með henni starfa tveir fulltrúar afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi.

Stjórnin er kosin á aðalfundi þannig að oddatöluár skal kjósa formann og þrjá stjórnarmenn til tveggja ára en hitt árið þrjá stjórnarmenn til tveggja ára. Þá eru þrír menn kosnir í varastjórn til eins árs í þeirri röð sem þeir taka sæti í stjórn verði forföll.

Varamenn sitja fundi stjórnar og taka að sér verkefni samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

Fráfarandi formaður á einnig sæti í stjórninni í eitt ár eftir kjör nýs formanns.

Tveir fulltrúar afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi, annar frá Bandaríkjunum og hinn frá Kanada, eru kjörnir sérstaklega til að starfa með stjórninni að höfðu samráði við Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi.

Forstöðumaður Vesturfarasetursins á Hofsósi situr fundi stjórnarinnar sem áheyrnarfulltrúar.

Félagsstjórn er heimilt að ráða starfsfólk.

5. gr.

Á aðalfundi skulu kosnir skoðunarmenn reikninga félagsins.

6. gr.

Reikningsárið er almanaksárið. Árgjald skal ákveðið á aðalfundi.

7. gr.

Félagsstjórn er heimilt að skipa fjögurra manna framkvæmdaráð. Í því sitja formaður félagsins, auk þriggja annarra úr stjórninni  samkvæmt ákvörðun stjórnarfundar.

8. gr.

Ef þörf krefur er stjórninni heimilt að skipa fulltrúa frá félaginu til setu í stjórnum annarra félaga eða ráðum, á fundum eða þingum, þar sem fjallað er um málefni eða unnið að verkefnum er varða hagsmuni félagsins og/eða önnur áhugamál þess.

9. gr.

Stjórn félagsins skipar heiðursráð félagsins. Í því eiga  sæti heiðursfélagar ÞFÍ,  formaður ÞFÍ ásamt fyrrverandi formönnum, einstaklingar sem unnið hafa mikilvægt starf fyrir félagið og fulltrúar stofnana, fyrirtækja og samtaka sem hafa stutt og styrkt félagið. Tilgangur heiðursráðsins er að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi. Stjórn félagsins tilnefnir formann heiðursráðsins sem boðar til funda þess og stýrir fundum. Stjórn félagsins setur heiðursráðinu starfsreglur.

10. gr.

Verði félagsslit skal boða til sérstaks fundar um það mál á sama hátt og til aðalfundar. Allar eignir félagsins skulu þá fengnar Menntamálaráðuneytinu til varðveislu. Að 10 árum liðnum getur ráðuneytið varið eignum félagsins í þágu þeirra málefna, sem þykja standa næst markmiðum þessara félagslaga. Verði nýtt félag, sem starfar í anda þessara laga, stofnað innan 10 ára frá félagsslitum, skulu eignir félagsins renna til þess.

Ákvæði til bráðabirgða

Á aðalfundi félagsins 2017 skal formaður félagsins kjörinn til tveggja ára sem og 3 stjórnarmenn. 3 stjórnarmenn skulu kosnir til eins árs.

 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins 17. apríl 2013, að gerðum breytingum á aðalfundi félagsins 27. apríl 2017.